Skýrsla stjórnar

Skýrsla stjórnar

Á árinu 2022 var áframhaldandi uppbygging í körfuboltanum hjá Aftureldingu.  Aukning var í flestum flokkum  og gríðarlegar framfarir hjá þeim öllum.  Við erum með eitt til tvö lið skráð í Íslandsmót í öllum flokkum frá 9. flokki niður í minnibolta hjá drengjum.   Hjá stelpunum erum við með öflugan 8. flokk  sem hefur unnið sig upp um 3 styrkleikaflokka á síðasta ári.  Það er alveg ljóst að við eigum helling inni í kvennakörfunni í Mosfellsbæ og þurfum að finna leiðir til að efla það starf í framtíðinni.

Það má segja að það séu allir flokkar hjá okkur fullnýttir.  Okkur er úthlutað flestum tímum í Lágafellsskóla en þar er erfitt að halda úti góðum æfingum með meira en 12-15 iðkendur. Það er ljóst að við þurfum að fá töluvert fleiri tíma og eða  tíma í stærri sölum.

Það er alltaf töluverð áskorun að manna þjálfarastöður á hverju hausti en í ár erum við mjög heppin með þjálfara en þeir Sævaldur Bjarnason (yfirþjálfari) Hlynur Logi og Ingvi Guðmundsson eru aðalþjálfarar hjá okkur og með þeim eru 6 aðstoðarþjálfarar.  Aðstoðarþjálfarar eru núverandi og fyrrverandi iðkendur í KKD Aftureldingar og er jákvætt og mikilvægt að njóta krafta þeirra í þessu uppbyggingarstarfi á körfunni í Aftureldingu.

Núna í haust og vetur hófst tilraunastarf á ungmennaflokki drengja(15 til 19 ára) sem er rétt að fara af stað.  Hugsunin með því er að reyna að bjóða þeim ungmennum sem búa í Mosfellsbæ tíma og aðstöðu til að koma í körfu tvisvar í viku undir leiðsögn þjálfara.

Aðstaða

Það er orðið alveg ljóst að aðstaðan er farinn að hamla fjölgun hjá okkur.  Við höfum verið með 3. og 4. bekk saman og 5. og 6. bekk en þar er iðkendafjöldi orðin slíkur að salurinn í Lágafellslaug er orðin of lítill ( 20-30) á hverri æfingu. Það er annað hvort að fá fleiri tíma, stærri sal eða setja fjöldatakmarkanir í flokkana.  Að bjóða upp á svona fjölmennar æfingar hefur neikvæð áhrif á upplifun þeirra sem þar eru og þjálfun verður mjög erfið.

Það má með sanni segja að Mosfellsbær hafi svikið körfuboltakrakka og alla sem langar að fara í körfu á útivöllum með þá framkvæmd sem farið var í eftir íbúakosninguna 2021!  Þeir vellir sem settir hafa verið upp eru í engu samræmi við þá hugmynd af völlum sem gefið var í skyn að væri verið að kjósa um.  Þessir vellir sem eru komnir upp eru Heilsueflandi sveitafélagi til skammar og ekki til þess fallnir að fá börn og ungmenni út til að stunda íþróttir!