Skýrsla stjórnar

Frjálsíþróttadeild Aftureldingar – skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2022.
Mosfellsbæ, 15.03.2023

 

Heildarfjöldi iðkenda á árinu var 146 og skiptist svona milli anna, hópa og aldurs:

10 ára og yngri                                       19
11-14 ára                                                  11
15 ára og eldri                                         3
Hlaupanámskeið/hópur                      113

Samtals                                               146

 

Barna og unglingastarfið hefur verið erfitt undanfarið og sífellt meira brottfall úr deildinni. Okkur tókst ekki að festa þjálfara í sumarstarf og féll því allt starf í frjálsíþróttadeildinni niður í sumar. Einnig var nokkuð liðið á haustið áður en þjálfari fékkst til starfa. Þessir erfiðleikar bitnuðu óneitanlega á skráningu í deildina í haust. En batnandi mönnum er best að lifa og vonum við nú að uppbyggingarferlið sé hafið.

Á vorönn 2022 setti frjálsíþróttadeildin af stað hlaupanámskeið fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Þátttakan var fram úr björtustu vonum og urðu námskeiðin í allt fimm 8 vikna námskeið. Námskeiðin voru byggð upp með þremur hlaupum í viku og vikulegri styrktaræfingu. Einnig var boðið upp á fræðslu um næringu, meiðslahættu og margt annað. Þátttakendur í námskeiðunum urðu samtals 96 og voru sumir að stíga sín fyrstu skref í skipulögðum hlaupum, aðrir að rífa sig af stað aftur eftir hlé og enn aðrir að ná sér í aðhald og fróðleik til að bæta sig enn meira á hlaupunum.

Á haustmánuðum 2022 náðist svo samkomulag milli frjálsíþróttadeildarinnar og Mosóskokks um sameiningu undir merkjum beggja hópanna og hefur Hlaupahópur Aftureldingar – Mosóskokk verið starfrækt síðan með fjölda þátttakenda og góðum þjálfara.

Nokkrir viðburðir voru haldnir í hlaupahópnum t.a.m. Kirkjuhlaup á öðrum degi jóla og Þrettándahlaup laugardaginn eftir þrettánda dag jóla. Frábær þátttaka var í þessum viðburðum og stefnir hópurinn ótrauður á frekari samhlaup og samveru.

Álafosshlaupið var á sínum stað þann 12. Júní sem var sunnudagur þetta árið. 86 hlauparar hlupu í ár í góðum aðstæðum og frábæru veðri. 23 hlauparar hlupu 5 km hlaupið og þar voru sigurvegarar Sindri Karl Sigurjónsson (2009) á tímanum 22:57 og Lilja Kjartansdóttir (1988) á tímanum 26:41. 63 hlauparar hlupu 10 km hringinn og þar voru sigurvegarar Adrian Graczyk (1988) á tímanum 34:52 og Verena Karlsdóttir (1985) á tímanum 41:45. Allir voru leystir út með verðlaunapening frá Ásgarði, gómsætum gjöfum frá Mosfellsbakaríinu okkar og öðrum frábærum vinningum frá okkar góðu styrktaraðilum.

Frjálsíþróttadeildin tók svo þátt í skipulagningu og framkvæmd á Drulluhlaupi Krónunnar í ágúst. Verkefnið var hluti af afmælisviðburðum UMSK sem fagnaði 100 ára afmæli á árinu. Óhætt er að segja að viðburðurinn hafi vakið mikla lukku og heppnast með eindæmum vel. Þátttakendur voru 400 og komust færri að en vildu. Engin tímataka var í brautinni sem var um 4 km löng með 21 miserfiðum og mis drullugum þrautum. Stærsta umkvörtunarefni þátttakenda var að drullan hefði mátt vera meiri. Afturelding og frjálsíþróttadeildin mun halda þessum viðburði áfram og munum við gera allt sem í okkar valdi stendur að auka á drulluna 😊

Engir iðkendur voru í meistarflokki hjá Aftureldingu í frjálsum íþróttum árið 2022. Ekki var því valið í frjálsíþróttamann eða konu ársins og Gunnellubikarinn var ekki afhentur þetta árið.

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um breytingar á aðalíþróttavelli og íþróttasvæðinu við Varmá. Það er mikill þrýstingur að setja gervigras á aðalvöllinn til að auka nýtingu á því svæði. Upp hafa komið hugmyndir um að hafa ekki hlaupabraut í kringum grasvöllinn og koma honum nær stúkubyggingu sem á að ráðast í. Mjög takmarkað pláss er á Varmársvæðinu og finna þarf leiðir til þess að hámarka nýtingu þess fyrir allar deildir. Rætt hefur verið um möuguleika á að útbúa frjálsíþróttavöll í ½ stærð, þeas með 200 metra hring og aðskilja alveg frá grasvellinum. Sú útfærsla hefur sína kosti og galla, stærsti vankanturinn við þess háttar völl er að með slíkum velli er Mosfellsbær og Afturelding að frjábiðja sig mótahaldi í frjálsum íþróttum m.a. Landsmótum UMFÍ, bæði unglinga og fullorðins.  Gott væri að aðskilja íþróttirnar til að minnka árekstra og ná betri nýtingu á völlunum til æfinga. Það þarf hins vegar að hugsa þetta vel og hámarka nýtingu svæðis og fjármuna og því er það trú frjálsíþróttadeildarinnar að heppilegast og hagkvæmast væri að halda óbreyttu skipulagi á vellinum. Verði sett gervigras á aðalvöllinn þarf að finna kastsvæði fyrir spjót-, kringlu- og sleggjukast á öðrum stað og heppilegast væri að það væri sem næst aðalvellinum.

Fjárhagslega gekk árið vel upp og líta áætlanir fyrir 2023 vel út. Vísum við til ársreiknings og áætlunar fyrir nánari upplýsingar.

Virðingarfyllst, Stjórn Frjálsíþróttadeildar Aftureldingar.

Yngri flokkar við keppni á Stórmóti ÍR

Hástökksæfing í sal 3 að Varmá.

Sigurvegarar í Álafosshlaupinu 2022.

 

Nokkrar svipmyndir úr Drulluhlaupi Krónunnar 2022:

Hlaupahópur Aftureldingar – Mosóskokk í yndishlaupi á laugardegi.

Hluti þátttakenda í Kirkjuhlaupinu á öðrum degi jóla.

Vinningar í Þrettándahlaupinu

Hluti hlaupahópsins í vetrarhlaupi á blíðviðrisdegi.

Brekkusprettir á gæðaæfingu.