Skýrsla meistaraflokks kvenna

Meistaraflokkur kvenna

Meistaraflokkur kvenna hefur spilað í Grill 66 deildinni í vetur ásamt átta öðrum liðum, þar af þremur U liðum.  Það var einhver skrekkur í liðinu í fyrstu tveimur leikjum vetrarins sem enduðu með jafntefli og tapi en síðan þá hefur liðið unnið alla sína 13 leiki og þegar aðeins einn leikur er eftir hafa þær þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og sæti í Olísdeildinni næsta vetur.  Liðið hefur sýnt framfarir, seiglu og aukinn styrk með hverjum leiknum, auk þess sem liðsheildin er sterk og mórallinn góður.  Í bikarkeppninni laut liðið í lægra haldi fyrir úrvalsdeildarliði Stjörnunnar í fyrstu umferð í nóvember og komst því ekki lengra þar.

 

Guðmundur Helgi Pálsson hefur staðið áfram í stafni sem aðalþjálfari og Einar Bragason verið honum til aðstoðar auk þess að sjá um markmannsþjálfun. Þá hefur Yrja Dögg Kristjánsdóttir séð um styrktarþjálfun og þeir Guðmundur Karl Úlfarsson sjúkranuddari og Unnar Arnarsson skipst á að aðstoða liðið í leikjum.

Leikmannabreytingar urðu í haust, en þá komu tveir nýir markverðir, Mina Mandic Svartfellingur kom frá Selfossi og Rebecca Fredrika Adolfsson frá Finnlandi en Eva Dís Sigurðardóttir fór yfir í Stjörnuna.  Þá kom Katrín Erla Kjartansdóttir skytta frá Fjölni/Fylki og Dagný Lára Ragnarsdóttir hornamaður frá Gróttu, auk þess að Ragnhildur Hjartardóttir sneri aftur á völlinn eftir barnsburð eftir áramótin.  Kjarninn í liðinu er sem fyrr skipaður uppöldum leikmönnum og hefur samstarf stelpnanna gengið afar vel.  Sylvía Björt Blöndal hefur farið á kostum með liðinu og skorað 150 mörk í deildinni.  Þá hefur Anna Katrín Bjarkadóttir stimplað sig vel inn og er komin með 74 mörk, auk þess sem Katrín Helga Davíðsdóttir fyrirliði og Susan Barinas hafa skorað yfir 60 mörk.

Sjálboðaliðastarfið í kringum liðið er skemmtilegt og gefandi en það hefur verið áskorun í kjölfar heimsfaraldurs að halda í fólk og fá nýja inn.  Það stendur þó allt til bóta og við í meistaraflokksráði stefnum á fjölgun, en þrátt fyrir allt er fólk að leggja sig fram um að halda vel utan um heimaleiki, fjáraflanir og aðra umgjörð í kringum stelpurnar.

 

Áfram Afturelding – áfram stelpur

Erla Dögg Ragnarsdóttir

Formaður meistaraflokksráðs kvenna í handbolta