Starfsskýrsla Blakdeildar Aftureldingar fyrir árið 2022
Árið 2022 var fyrsta heila árið sem hægt var að spila blak án takmarkana frá árinu 2019.
Bikarkeppni BLI; Kjörísbikarinn fór fram í mars 2022 og var spilað í Digranesi í glæsilegri umgjörð. Karlaliðið okkar datt út eftir tap gegn KA í 8 liða úrslitunum en unnu þá síðan sannfærandi viku síðar.
Kvennaliðið okkar fór alla leið í úrslitaleikinn og töpuðu þær úrslitaleiknum gegn KA sem urðu því bikarmestarar 2022.
Í Íslandsmótinu 2021-2022 fóru bæði liðin okkar í undanúrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Karlaliðið endaði í 3.ja sæti í deildinni og kvennaliðið fór alla leið í úrslitakeppnina og háði úrslitaeinvígið við KA sem urðu þrefaldir meistarar 2022 eftir að hafa unnið okkar stúlkur í úrslitakeppninni og einnig unnið deildina.
Eins og undanfarin ár þá var Afturelding með mörg lið skráð í Íslandsmóti Blaksambands Íslands en alls er spilað í 4 karladeildum og 8 kvennadeildum og eru deildir 2-6 spilaðar í þremur helgarmótum. Blakdeild Aftureldingar sá um helgarmót 2 sem haldið var í janúar 2022 og voru það lið í 3.5. og 6.deild kvenna sem spiluðu að Varmá. Meistaraflokkarnir sáu um dómgæslu og veitingasölu og tókst það mjög vel og var þetta gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir meistaraflokkana okkar.
Blakhóparnir sem æfðu undir merkjum Aftureldingar á leiktíðinni 2021-2022 voru eftirfarandi:
Meistaraflokkur karla: Tefldi fram liði í Úrvalsdeild karla.
Meistaraflokkur kvenna: Tefldu fram liði í Úrvalsdeild kvenna.
Meistaraflokkur kvenna: 2-4 deild: 2 lið sem æfa og keppa í Íslandsmótum BLÍ og 3 lið á Öldungamóti BLÍ
Afturelding Töff : 1 lið í Íslandsmóti BLÍ og 2 lið á Öldungamóti BLI.
Afturelding Bombur: Spiluðu sitt fyrsta Íslandsmót í 6.deild kvenna og 2 lið á Öldungamóti BLI.
Afturelding C eða Steve Öxl er karlahópur sem spilar í 3.deild karla og var þetta fyrsta árið þeirra þar. Frá haustinu 2022 fóru þeir að æfa tvisvar í viku.
Blakskvízur er hópur sem myndaðist eftir námskeið fyrir byrjendur sem haldið var í September 2021og tók þátt í Öldungamótinu 2022. Reynt var að byrja með byrjendahóp aftur um haustið 2022 en hann datt upp fyrir þar sem léleg mæting var og þeir iðkendur sem mættu vel gáfust upp.
Til viðbótar eru svo iðkendur í BUR að sjálfsögðu og voru 2 unglingalið sem kepptu í Íslandsmóti fullorðinna. Stúlknaliðið Afturelding B, sem spilaði í 1.deild kvenna og sem B lið þannig að þær stúlkur sem þar eru er hægt að taka upp í meistaraflokk kvenna og þannig fá þær að vera á bekknum þar en fá spilatíma í 1.deildinni. Markmiðið með B liði er að það er svokallað “developing” lið auk yngri iðkenda sem æfðu og kepptu á mótum í sínum aldursflokkum.
Einnig hefur BUR verið með unglingalið sem spilar í 4.deild kvenna og er það frábær vettvangur fyrir unga leikmenn til að fá leikreynslu.
Drengjamegin voru í fyrsta skipti nógu margir drengir að æfa svo hægt var að búa til unglingalið drengja. Í haust, 2022 var drengjalið skráð í 3.deild karla og einnig í nýja deild sem heitir U20 drengir og er sú deild bæði spiluð á landslvísu í helgarmóts-fyrirkomulagi og einnig innan landsfjórðunga. Þessir leikir eru mjög mikilvægir fyrir ungu strákana upp á leikreynslu að gera því almennt séð þá komast þeir seinna inn í meistaraflokkana en stúlkurnar.
Starfið:
Það eru flestir sammála því að afreksstarf er nauðsynlegt innan íþróttafélaga og að það hvetur yngri iðkendur til dáða og fyrir þá sem stefna hærra þá er það nauðsynlegt.
Eins og komið hefur fram þá heldur Blakdeildin úti starfi fyrir marga aldurshópa á mörgum mismunandi getustigum hvað fullorðna snertir. Boðið er upp á fullorðinshópa sem keppa í Íslandsmótum á vegum Blaksambands Íslands sem og þá sem eru eingöngu æfa sér til skemmtunar og blandast þessir hópar saman gjarnan og því getustigið mismunandi í hópunum.
Í 2 ár hefur nú verið starfrækt svokallað Neðri deildar ráð og eru 2 fulltrúar úr hverjum æfingahópi kvennamegin í því ráði.
Ég lagði til á síðasta aðalfundi að einn fulltrúi úr öllum æfingahópum deildarinna, að undanskildu barna- og unglingadeildum myndu mynda neðri deildarráðið.
Þetta gerir 5 manns og sameiginlegt skipulag varðandi ferðir á Íslandsmót og Öldungamót og allt sem lýtur að samvinnu og það sem sameinar þessa hópa er viðfangsefni ráðsins þannig að samvinna myndist þvert á hópana.
Ráðið kýs sér formann sem situr þá í stjórn Blakdeildarinnar ásamt formanni deildarinnar og formönnum og gjaldkerum BUR og mfl ráðs.
Ráðið komi sér upp netfangi þannig að allar upplýsingar frá t.d. BLI varðandi neðri deildir komi á einn stað og þaðan sé upplýsingum deilt á hópana. Þetta hefur ekki alveg gengið eftir en þó er orðið mun meira samráð milli æfingahópa og samvinna og má búast við áframhaldandi samvinnu þar.
Flaggskip Blakdeildarinnar eru meistaraflokkarnir okkar sem spila í úrvalsdeildum karla og kvenna og eru það fyrirmyndir ungu iðkendanna okkar og liggur það í hlutarins eðli að þær deildir eru dýrastar í rekstri og því leggjum við mikla áherslu á að finna stuðningsaðila til að auðvelda þann rekstur en rekstarstyrkur Mosfellsbæjar er mikil búbót í því verkefni og skipta sköpum í því að halda úti metnaðarfullu starfi þar.
Fjárhagslegt umhverfi:
Fjárhagslega þá hefur oftast verið mjög erfitt fyrir blakíþróttina.
Erfitt er að fá fyrirtæki til að styrkja starfið, enda lítið um að fjölmiðlar fjalli um þessa íþrótt. FINAL4 helgin í Bikarkeppni BLI er mjög mikilvæg fyrir meistaraflokkana okkar. Með því að komast í úrslitaleikina, skapasti möguleikinn til að selja auglýsingar til fyrirtækja því um beinar útsendingar á RUV er að ræða frá úrslitaleikjunum og hefur það mikið gildi greinilega.
Þess utan þá eru helstu fjáraflanir deildarinnar æfingabúðir bæði fyrir börn og fullorðna sem og skemmtimót og Íslandsmót sem félagið fær úthlutað og hafa haldið deildinni á floti fjárhagslega allt frá fyrsta Öldungamótinu sem deildin hélt í maí árið 2002.
Meistaraflokksráðið hefur undanfarin ár látið gera endurskinsmerki með merki Aftureldingar á og fengið styrki frá fyrirtækjum til að styrkja framtakið. Endurskinsmerkin hafa síðan verið gefin öllum börnum 4ra ára og eldri í Mosfellsbæ. Hlé var gert á þessari gjöf árið 2021 en haustið 2022 gekk þetta verkefni mjög vel og tók mörg fyrirtæki þátt í því og vekur þetta gjarnan mikla lukku meðal barnanna.
Sameiginleg fjáröflun Barna – og unglingaráðs og meistarflokkanna okkar er happdrætti Blakdeildarinnar og flatkökusalan mánaðarlega.
Sem betur fer þá tekst deildinni að nýta samlegðaráhrif af því að hafa sameiginlega þjálfara og sparar það bæði BUR og meistaraflokkunum talsverðar upphæðir á árs grundvelli og er þessi fjáröflun mjög mikilvæg í þeirri samvinnu. Ekki hefur verið haldið happdrætti í 3 ár en á síðasta ári var ákveðið að sleppa því og í haust þá barst annað stórt verkefni upp í hendur deildarinnar þegar okkur var boðið að vera áhorfendur í sjónvarpsþáttaröðinni Afturelding, sem sýnd verður um páskana 2023.
Tindahlaupið er stór þáttur í fjáröflun meistaraflokkanna fyrir veturinn og fer fram á bæjarhátíðinni Í Túninu heima í lok ágúst ár hvert. Tindahlaupið 2022 fór fram úr björtustu vonum okkar skipuleggjandanna og fjölgaði hlaupurum mjög mikið. Þetta er frábær fjáröflun fyrir meistaraflokkana okkar og gengur samstarfið við Björgunarsveitina og Mosfellsbæ sem er leitt af Birgi Konráðssyni mjög vel. Á uppskeruhátíð Aftureldingar 2022 fékk meistaraflokksráð Blakdeildarinnar viðurkenningu fyrir Tindahlaupið og erum við ákaflega stolt af því.
Æfingabúðir fyrir börn og unglinga var haldið í ágúst 2022 en engin gisting var í boði í skólum bæjarins vegan viðhalds Varmáskóla.
Áramót Blakdeildar Aftureldingar sem haldið hefur verið á Gamlársdag var svo loksins haldið aftur eftir heimsfaraldurinn og var metaðsókn í mótið og tókst það frábærlega.
BUR – Barna- og Unglingastarfið
Erfiðlega hefur gengið að fjölga iðkendum í blakinu undanfarin ár og því miður hefur heldur dregið úr fjöldanum heldur en hitt í ár. Við köllum eftir hugmyndum frá foreldrum hvað sé hægt að gera til að reyna að fá inn fleiri iðkendur í blakið. Við eigum mjög efnilega og flotta krakka sem þarf að halda utan um og köllum við eftir aðstoð foreldra þar.
Veturinn 2021-2022 héldum við út æfingum í yngri flokkum í eftirtöldum flokkum:
U16 piltar
U16 stúlkna
U14 stúlkur
U14 piltar
U12 blandað
U10 blandað
U-16 kvk urðu í 3.sæti á bikarmóti BLI á Akureyri í febrúar 2022.
U-16 strákar urðu í 6. sæti á bikarmótinu.
U 16 kvenna urðuð í 2.sæti i á Íslandsmótinu samanlagt 2022.
U16 kk urðu í 5.sæti.
U-12 A-lið enduðui í 3. og 5.sæti á Íslandsmóti í maí 2022.
BUR sendi lið á öll Íslands og bikarmót s.l. vetur en ekki tókst að halda nein héraðsmót á Suðvesturhorninu eins og BLI lagði upp með í haust.
Sama fyrirkomulag var þetta árið hjá BUR og árið áður og var starfandi yfirþjálfari , Ana Maria Vidal Bouza, og er hún með yfirumsjón með öllu yngri flokka starfinu og þar með talið samskipti við þjálfara og æfingaáætlanir allra flokka og samhæfingu og samræmingu milli flokka og yfirumsjón með að skráning iðkenda skili sér og léttir það mikið á sjáflboðaliðastarfi ráðsins.
2021-2022
Íslandsmót yngri flokka, fyrri hluti, sem BUR hafði fengið úthlutað í október var haldið en því miður þá fékkst skólabyggingin ekki undir gistingu krakkanna utan af landi og var talsverð vinna að redda öllum gistingum hér í bæjarfélaginu og næsta nágrenni. En það tókst með góðri samvinnu. Mótið tókst mjög vel og var borðað í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og maturinn fékk háa einkunn hjá þátttakendum.
Á svona stundum þá vantar fleiri hendur og komu margir foreldrar og aðstoðuðu á mótinu og var frábært að fá að sjá framan í marga nýja foreldra sem lögðu hönd á plóginn. Samtals mættu 44 lið alls staðar af landinu á mótið.
Stelpurnar okkar í U16 sátu í efsta sætinu eftir það mót, af 11 liðum en seinni hluti mótsins var í maí 2022 í Neskaupstað.
Afturelding var með 2 lið í U12 stúlkna og ssameiginlegt strákalið í U16 með Sindra frá Höfn og Þrótti R.
Haustið 2022
Íslandsmót yngri flokka, fyrri hluti, sem BUR fékk úthlutað í október var haldið að Varmá, gisting fyrir landsbyggðarliðin var í Varmárskóla og var skráning góð. Tæplega 200 börn og fararstjórar gistu og borðuðu í Varmárskóla. Maturinn var framreiddur af matreiðslumeistaranum í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og hlaut hann góða umsögn. Samtals mættu 52 lið af landinu á mótið sem gekk vel í alla staði. Þegar svona stórt mót er í gangi er nauðsynlegt að fá allar hendur sem hægt er að fá til að aðstoða, þessi mót eru alla jafna stærstu einstöku fjáraflanir BUR yfir veturinn og því verður að vera hægt að treysta á að foreldrar gefi kost á sér í aðstoð við mótið.
Afturelding var með 1 lið í U14 stkúlkur, 1 lið í U16 drengirog 1 lið í U14 drengir blandað með Völsung og Vestra.
Skólablak
Skólablak eru blak viðburðir fyrir grunnskóla krakka í 4.-6. bekk og voru haldnir um allt land og var öllum skólum boðin þátttaka. Skólamótið í Mosfellsbæ fór fram að Varmá í Fellinu 27. September og var það fyrsta í röðinni þetta árið. Leikmenn úr meistaraflokkunum aðstoðuðu við að setja upp vellina og komu einnig ásamt yngri iðkendum deildarinnar og stjórnarmönnum og aðstoðuðu á mótinu sjálfu. Glæsileg umgjörð var um mótið og frábært að sjá uppsetninguna í Fellinu. Spilað var á grasinu og var gaman að sjá krakkana koma frá skólunum í Mosfellsbæ og greinilegt að þau skemmtu sér mjög vel. Það mættu krakkar frá Lágafellsskóla, Varmárskóla og einnig nokkrir úr Helgafellsskóla.
Því miður þá skilaði skólablakið engum nýjum iðkendum til okkar þetta árið en vonandi gengur það betur á næsta ári að fá nýja iðkendur til liðs við blakdeildina.
Aftureldingarbúðin
Blakdeildin rekur Aftureldingarbúðina en markmiðið með henni er að bjóða Mosfellingum upp á Aftureldingarvörur í íþróttamiðstöðinni. Það er engin gróði af búðinni en hún er þarna og er hugsuð sem þjónusta við félagsmenn Aftureldingar og foreldra iðkendan félagsins.. Einnig hefur búðin tekið þátt og boðið upp á vörur í fjáröflunum Aftureldingar. Á síðasta ári var hægt að selja það sem keypt hafði verið fyrir bæjarhátíðina 2021 sem var felld niður og seldist það vel en um er að ræða fána í hverfalitunum, bæði á flaggstangir sem og á húsþök og litlir fánar fyrir litlar hendur ásamt blöðrum til að búa til fígúrur. Svo það er klárt að þetta er komið til að vera. Nú þarf bara að fá fleiri hugmyndir.
Aðstaðan:
Aðstaða blakdeildarinnar er með því besta sem gerist á landinu hvað blakvellina snertir.
Óskastaðan er að geta haft sal 3 eingöngu undir blakið en á laugardagsmorgnum er salurinn notaður undir íþróttaskóla barnanna og þá færast blakæfingarnar í sal 2.
Blakdeildin er að samnýta sal 3 mjög vel fyrir alla sína hópa til að koma þeim fyrir og gefa úrvalsdeildarliðin eftir æfingatíma á keppnisvelli svo það gangi eftir. Þetta er ákaflega mikilvægt því blak er ekki bara fyrir börn og afreksfólk og samvinnan þar því mjög mikilvæg.
Innan blakdeildar Aftureldingar æfðu samtals 6 fullorðins hópar á síðasta ári fyrir utan meistaraflokkana.
Afturelding X spilaði í 3..deild Íslandsmótsins og vann sig upp í 2.deild vorið 2022.
Afturelding Þrumur spilaði í 4.deild Íslandsmótsins og endaði í A úrslitum en náði ekki að vinna sig upp í 3.deild.
Afturelding Töff féll um deild en þar sem eitt lið skilaði sér ekki í haust þá héldu þær sætinu í 4.deild kvenna
Afturelding Bombur spiluðu á sínu fyrsta Íslandsmóti og fóru beint úr 6.deild í 5.deildina
Afturelding C sem einnig heita Steve Öxl tóku þátt í sínu fyrsta Íslandsmóti í 3.deild karla og enduðu í neðsta sæti
Afturelding Skvízur var byrjendahópur sem farið var af stað með og æfðu einu sinni í viku en tóku ekki þátt í Íslandsmóti.
Afturelding var með alls 8 lið á Öldungamótinu 2022 sem haldið var í Kópavogi og stóðu liðin sig öll vel að sjálfsögðu og fell ekkert lið niður um deild og 3 lið enduðu á palli.
Félagið telfldi fram B liði kvenna sem tekur þátt í 1.deild Íslandsmótsins en það lið er tengt meistaraflokknum því leikmenn mega vera í báðum liðunum og er það yfirþjálfari meistaraflokks kvk sem stjórnar því flæði. Þetta er góður vettvangur fyrir yngri leikmenn til að fá reynslu á stóra sviðinu og spila alvöru leiki.
Haustið 2022 var farið af stað með U20 karladeild og er hún spiluð bæði á landsvísu sem og á landshlutarvísu. Tvær helgar eru spilaðar, ein fyrir áramót og ein eftir áramót þar sem liðin af öllu landinu koma saman og keppa sín á milli og á milli þessa helga þá eru spilaðir leikir heima og að heima innan fjórðungsins og taka strákarnir okkar þátt í þessu móti og er það frábær viðbót fyrir þá til að spila alvöru leiki svo þeir hafa fengið mjög mörg verkefni í vetur.
Stúlkurnar í 1.deild kvenna sjá um umsjón með leikjum strákanna og strákarnir sjá um leiki stelpnanna í 1.deildinni svo þau læra einnig að þessu fylgir ábyrgð og utanumhald.
Styrktarþjálfun innan félagsins
Aðstaða fyrir afreksfólkið okkar hvað varðar aðgang að því sem við teljum að sé eðlilegt hvað styrktarþjálfun snertir er alls engin nánast. Aðstaðan til líkamsræktar og styrktarþjálfunnar er afleit og í rauninni engin og hefur blakdeildin kvartað yfir því í nokkur ár, bæði til framkvæmdarstjóra félagsins og til aðalstjórnar og íþróttafulltrúa félagsins . Aðalstjórn Aftureldingar hefur beitt sér fyrir þessu og hefur verið sent bréf á bæjaryfirvöld og fundað með þeim út af þessu. Samkvæmt samningum við Mosfellsbæ þá mun engin líkamsræktarstöð vera frá sumarbyrjun 2023 en ekki hefur verið tilkynnt hvað eða hvort eitthvað komi í staðinn en það er ljóst að það verður eitthvað að koma ef við eigum að geta haldið liðum í efstu röð áfram.
Það er algjörlega óskiljanlegt að Mosfellsbær skuli bjóða sínu afreksfólki upp á þessa aðstöðu eða réttara sagt aðstöðuleysi og á sama tíma viljum við eiga íþróttafólk í fremstu röð og hreykjum okkur að þeim sem við eigum. Okkar von er sú að það verði unnið í þessu í samvinnu við deildir félagsins og það frekar fyrr en seinna.
Meistaraflokksráð deildarinnar hefur lagt mikið upp úr umgjörð á leikjum meistaraflokkanna okkar frá upphafi. Útbúnir hafa verið fánar af öllum leikmönnum sem hanga uppi á leikjum liðanna t.d. og hafa vakið athygli gestaliða í öðrum íþróttagreinum t.d. og reynt er að standa sem allra best að allri umgjörð í kringum liðin okkar og heimaleikina og reynt að uppfylla allar þær skyldur sem sambandið setur. Við gerum ákveðnar kröfur á leikmenn okkar í úrvalsdeildum karla og kvenna varðandi styrktarþjálfun, fjáraflanir og viðveru og ætlumst til þess að þau framfylgi því og á móti skuldbindur félagið sig til að útvega þá aðstöðu sem þarf, en við erum ekki að standa okkur þar hvað styrktarþjálfun varðar. Á árinu fengum við Ragga Óla ljósmyndara til að taka myndir af leikmönnum og í leik og þær síðan settar á skápa leikmanna í búningsklefunm þeirra ásamt liðsmyndum og Aftueldingarmerkinu og gerir það klefann svoldið meira að þeirra klefa.
Eitt sem mig langar að nefna og sem við getum gert mun betur er að við þurfum að vera mun sýnilegri í bæjarfélaginu og þurfum við öll að taka okkur á hvað það varðar sama um hvaða hóp er að ræða. Skapa sterkari ímynd og jákvæða af íþróttinni okkar því hún er frábær og hentar öllum. Við þurfum að vera duglegri við að setja t.d. fréttir í Mosfelling og birta á samfélagsmiðlum það sem við erum að gera og þarf hver hópur innan blakdeildarinnar að hugsa um það í rauninni. Hvað getur BUR t.d. gert til að vera meira áberandi fyrir yngri iðkendur og höfðað til þeirra? Neðri deildir bera líka ábyrgð og eru fyrirmyndir því þar eru ungu iðkendurnir okkar að keppa og horfa á sem og Barna-og Unglingaráðið.
Strandblaksvöllurinn á Stekkjarflöt er í umsjón blakdeildarinnar. Við höfum verið í góðu sambandi við bæinn varðandi völlinn. Það sem gerir völlinn hins vegar ekki svo aðlaðandi til að dvelja á er að það vantar salernisaðstöðu á svæðið sem vonandi kemur einn daginn.
Bærinn hefur lofað því að halda honum við og við þurfum að halda þeim við efnið ef hann á ekki að drabbast niður og auglýsi ég hér með eftir fólki í strandblaksnefnd sem tekur þennan strandblaksbolta og heldur á lofti fyrir hönd deildarinnar og passar upp á að völlurinn verði ekki bara sandkassi fyrir börn á góðum sumardegi heldur haldist í góðu ásigkomulagi þannig að okkar iðkendur geti haft sínar æfingar á vellinum.
Okkar fólk stóð sig frábærlega í sandinum á síðasta ári og tóku mjög margir iðkendur deildarinnar þátt í bæði stigamótum BLI viðs vegar um landið sem og í kvennadeildinni þar sem spilaðir voru leikir vikulega. Í ágúst var svo spilað um Íslandsmeistaratitilinn þar sem við áttum færr fulltrúa en venjulega vegna landsliðsverkefna A landsliðanna.
Blakfólk deildarinnar:
Blakkona Aftureldingar 2022 var valin Thelma Dögg Grétarsdóttir og Blakmaður Aftureldingar var Sebastian Sævarsson Meyjer og voru þau bæði vel að þessum tilnefningum komin en þau spiluðu bæði stór hlutverk í úrvalsdeildarliðum blakdeildarinnar auk þess sem Thelma var stigahæst á leiktíðinni og var valin í lið tímabilisins, var stigahæsti leikmaður deildarinnar í uppgjöf og einnig samtals.
Íþróttakona Aftureldingar 2022 var Thelma Dögg Grétarsdóttir og Íþróttakona Mosfellsbæjar einnig og er þetta annað árið í röð sem hún hlýtur þessar viðurkenningar og erum við ákaflega stolt af henni og hennar afrekum.
Á uppskeruhátíð Aftureldingar fékk hópur af okkar stjórnarfólki viðurkenningar og voru þökkuð góð störf í þágu deildarinnar og félagsins.
Gullmerki Aftureldingar: Þórey Björg Einarsdóttir sem hefur starfað í öllum ráðum dieldarinnar frá stofnun hennar nánast.
Silfurmerki Aftureldingar: Einar Friðgeir Björnsson, Jórunn Edda Hafsteinsdóttir og Margrét Ragnarsdóttir.
Bronsmerki Aftureldingar: Magnús Freyr Ólafsson og Þröstur Óskarsson.
Á uppskeruhátíð Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 þar sem kunngjört var valið á íþróttakonu og manni Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 var einnig tilkynnt sú nýlunda Mosfellsbæjar að heiðra þjálfara og sjálfboðaliði ársins í fyrsta skiptið. Sjálfboðaliði ársins kom í hlut formanns Blakdeildar Aftureldingar Guðrún K Einarsdóttir (Gunna Stína)
Íþróttakona Mosfellsbæjar var eins og áður hefur komið fram blakkonan Thelma Dögg Grétarsdóttir.
Landsliðin:
U21 kvenna: Í maí 2022 var fyrsti opinberi landslieikurinn í blaki spilaður í íþróttamiðstöðinni að Varmá þegar Blaksamband Íslands stóð fyrir SCA móti í kvennaflokki að Varmá. (SCA: Small Countries Association) Mótið var hluti af undirbúningi U21-landsliðs kvenna sem fór til Svartfjallalands 18.-22. maí. Á mótið komu A landslið kvenna frá Færeyjum, Írlandi og Skotlandi ásamt U21 árs liði Íslands. Í U21 árs liði Íslands voru 4 leikmenn frá Aftureldingu auk fjögurra af 5 starfsmönnum liðsins. Borja Gonzales er þjálfari og annar af tveimur aðstoðarþjálfurum hans var Thelma Dögg Grétarsdóttir. Liðsstjóri var Einar Friðgeir Björnsson og sjúkraþjálfari liðsins var Kristín Reynisdóttir. Leikmenn Aftureldingar sem voru í Íslenska liðinu eru: Daníela Grétarsdóttir, Lejla Sara Hadziredzepovic, Rut Ragnarsdóttir og Valdís Unnur Einarsdóttir.
U22 karla hélt til Tyrklands í lok maí þar sem þeir spiluðu í undankeppni EM og átti Afturelding einn fulltrúa í liðinu sem var Hermann Hlynsson og fararstjóri liðsins var formaður Blakdeildarinnar, Guðrún K Einarsdóttir.
A landslið kvenna: Risaverkefni var s.l. sumar þegar Ísland tók þátt í undankeppni EM. Afturelding átti hvorki fleiri né færri en 7 leikmenn í landsliðinu auk sjúkraþjálfara , liðsstjóra og þjálfara liðsins. Leikmennirnir: Rut Ragnarsdóttir,Tinna Rut Þórarinsdóttir, María Rún Karlsdóttir, Thelma Dögg Grétarsdóttir, Daníela Grétarsdóttir,Valdís Unnur EinarsdóttirL og Lejla Sara Hadziredzepovic komu allar frá blakdeild Aftuerldingar. Borja Gonzalez Vincente þjálfari, Kristín Reynisdjúkóttir sjúkraþjálfari og Berglind Valdimarsdóttir liðsstjóri komu sömuleiðis úr okkar röðum.
A landslið karla voru einnig í risa verkefni s.l. sumar því þeir tóku einnig þátt í undankeppni EM og þar áttum við 3 fulltrúa: Atli Fannar Pétursson, Hafsteinn Már Sigurðsson og Þórarinn Örn Jónsson auk þess sem Sebastian Sævarsson Meyjer æfði með liðinu en vegna tæknimála þá fékk hann ekki að keppa með liðinu.
U17 landsliðið kvenna tók þátt í NEVZA mótinu í Danmörku í október og átti Afturelding 3 stúlkur í landsliðinu, þær Lejla Sara Hadziredzepovic , Jórunn Ósk Magnúsdóttir og Isabella Rink og komu stelpurnar heim með bronsverðlaunin og var Lejla Sara valin mikilvægasti leikmaður mótsins.
U19 landslið kvenna tók þátt í NEVZA í Finnlandi í október og þar átti Afturelding 3 fulltrúa. Það voru : Lejla Sara Hadziredzepovic, Rut Ragnarsdóttir og Valdís Unnur Einarsdóttir. Þjálfari liðsins var Borja þjálfari meistaraflokksliða Aftureldinga og liðsstjóri var Einar Friðgeir Björnsson í meistaraflokksráði Aftureldingar.
Alls voru 13 leikmenn Aftureldingar valdir í landsliðsverkefni og margir voruí fleirum landsliðum en einu. Ein stúlka tók þó þátt í öllum landsliðum kvenna á síðasta ári en það var Lejla Sara Hadziredzepovic sem var valin í öll kvennalandsliðin á síðasta ári og fékk hún sérstaka viðurkennigu fyrir það afrek frá Aftureldingu þegar landsliðsfólk félagsins var heiðrað.
Listi yfir Aftureldingarblakara sem valdir voru í landslið 2022.
Valdís Unnur Einarsd | U 21 landslið | A landslið kvk | ||
Rut Ragnarsd | U 21 landslið | A landslið kvk | ||
Daníela Grétarsd | U 21 landslið | A landslið kvk | ||
María Rún Karlsdóttir | A landslið kvk | |||
Tinna Rut Þórarinsdóttir | A landslið kvk | |||
Thelma D0gg Grétarsdóttir | A landslið kvk | |||
Lejla Sara Hadziredzepovic | U17, U19, U21 | A landslið kvk | ||
Jórunn Ósk Magnúsdóttir | U 17 landslið | |||
Isabella Rink | U17 landslið | |||
Þórarinn Örn Jónsson | A landslið kk | |||
Hafsteinn Már Sigurðsson | A landslið kk | |||
Atli Fannar Pétursson | A landslið kk | |||
Hermann Hlynsson | U22 kk | |||
Þjálfarar leiktíðina 2021-2022:
Þjálfari meistaraflokka karla og kvenna : Borja Gonzales Vincente
Styrktarþjálfari meistaraflokkanna: Ana Maria Vidal Bouza
Haustið 2022 komu nýjir þjálfarar inn í teymi yngri flokka.
Yfirþjálfari yngri flokka var áfram Ana Maria Vidal
U20 drengir: Dorian Poinc
U20 kvk: Dorian Poinc og Borja
U18 kvk: Atli Fannar Pétursson
U16 kvk byrjendur: Kristinn Rafn Sveinsson
U14 kvk: Dorian Poinc
U12 blandaður: Hafsteinn Már Sigurðsson
U10 og U8 börn: Atli Fannar Pétusson
Þjálfarar neðri deilda félagsins eru leikmenn meistaraflokks karla:
Dorian Poinc, Matias Ocompo,Kristinn Rafn Sveinsson og Atli Fannar Pétursson.
Dómaramál
Haldið var dómaranámskeið í desember 2022 að Varmá og tóku 8 ungmenni dómaraprófið og var endað á æfingaleikjum í neðri deildum þar sem þau voru látin þreyta verklega prófið. Öll stóðust þau prófið með sóma og nú þurfa þau æfingu í dómgæslu áður en þau halda á stóra sviðið en öll hafa þau dæmt nú þegar í neðri deildar móti og stóðu sig frábærlega. Félagið þarf að uppfylla ákveðin skilyrði fyrir fjölda dómara á vegum félagsins miðað við fjölda liða sem spila í Íslandsmótinu. Eins og staðan er þá er engin að dæma á vegum félagsins en við með lið að keppa á Íslandsmótinu.
Þakkir:
Þeir sem gefa kost á sér í ráð og stjórn blakdeildar fá sérstakar þakkir. Oft er þetta vanþakklátt starf en öll erum við í þessu vegna áhuga okkar á íþróttinni eða vegna þess að barnið okkar stundar blakið og öll viljum við að starfið haldi áfram og allir eru alltaf að reyna að gera sitt besta. Við megum ekki missa sjónar á því.
Ég vil minna okkur öll á það að við skiptum öll máli hvort fyrir annað, allar deildir, allir hópar, allur aldur. Við þurfum öll á hvort öðru að halda því það hefur verið aðalsmerki Blakdeildarinnar í gegnum árin að okkur hefur auðnast að halda samvinnu þvert á hópa og aldur og flestir hafa verið boðnir og búnir til að aðstoða þegar á þarf að halda og vonandi helst það þannig áfram.
Fyrir fámenna deild skiptir þetta miklu því hvert verkefni er stórt og krefst ákveðins fjölda svo framkæmanlegt sé. Við skulum þakka fyrir þessa samvinnu því hún er ekki sjálfgefin.
Mjög mikilvægt er að foreldrar taki þátt í starfinu þó í litlum mæli sé. Til að byggja upp öflugt barna- og unglingastarf þá þurfa foreldrar að vera tilbúnir að aðstoða og vera með og t.d. taka að sér ákveðið hlutverk innan flokksins. Margar hendur vinna létt verk er svo sannarlega satt og rétt í þessu tilfelli.
Ég vil þakka sérstaklega öllum stjórnarmeðlimum í ráðum deildarinnar fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf á liðnu starfsári og starfsárum.
Þeim sem ætla að hætta vil ég færa sérstakar þakkir fyrir þeirra óeigingjarna starf fyrir deildina.
Í ráðum blakdeildar 2021-2022sátu:
Guðrún K Einarsdóttir formaður.
Guðbrandur Pálsson formaður mfl ráðs
Einar Friðgeir Björnsson gjaldkeri mfl kvenna
Þröstur Óskarsson mfl ráði
Sigurgeir Hallgrímsson formaður BUR
Magnús Freyr Ólafsson gjaldkeri BUR
Þórdís Ólafsdóttir neðri deildar ráð
Brynja Haraldsdóttir neðri deildar ráð
Sandra Mjöll Sigurðardóttir neðri deildar ráð
Margrét Ragnarsdóttir neðri deildar ráð
Erla Gunnarsdóttir neðri deildar ráð
Lilja H Sturludóttir neðri deildar ráð
Heiðrún Svala Antonsdóttir neðri deildar ráð
Bára Ingibergsdóttir neðri deildar ráð
Vallý Sævarsdóttir neðri deildar ráð
F.H. starfsráða innan Blakdeildar Aftureldingar
Guðrún K Einarsdóttir
Formaður