Skýrsla formanns fyrir árið 2022:
Aðalfundur Aftureldingar 27. Apríl í Hlégarði.
Aðalstjórn Aftureldingar 2022
Birna Kristín Jónsdóttir, fomaður
Hrafn Ingvarsson, varaformaður
Sigurður Rúnar Magnússon, gjaldkeri
Geirarður Þórir Long, ritari
Gunnar Skúli Guðjónsson, meðstjórnandi
Reynir Ingi Árnsson, meðstjórnandi
Erla Edvardsdóttir, lét af störfum og snéri sér að bæjarmálum.
Árið 2022 var nokkuð viðburðarríkt hjá okkur eins og gefur að skilja með 11 deildir og 18 rekstrareiningar. Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt og takast á við nýjar áskoranir. Það urðu breytingar á starfsfólkinu okkar. Svava sem var bókari hjá okkur hætti í byrjun árs og samhliða var bókhaldinu úthýst til Sessor og Kristrún framkvæmdastjóri hætti á vormánuðun og Grétar Eggertsson tók við stöðu framkvæmdastjóra. Við þökkum Kristrúnu og Svövu báðum kærlega fyrir þeirra framlag. Starfsmannaveltan okkar hefur verið ansi hröð að mínu mati undanfarin ár og ég tel að það skýrist af því að álagið á starfsfólkið okkar er gríðarlega mikið. Það er alveg ljóst að í samanburði við önnur íþróttafélög erum við talsvert undirmönnuð og þurfum að einbeita okkur að því að fá til okkar fleiri stöðugildi ef við eigum ekki að keyra starfsfólkið okkar ítrekað í kaf. Kröfur til íþróttafélaga eru alltaf að verða meiri og meiri og samhliða því er erfiðara að fá fólk til að gefa tímann sinn í sjálfboðaliðastörf. Við þurfum að leggjast öll á eitt í Aftureldingu og Mosfellsbæ að finna leiðir til að leiðrétta þessa þróun.
Afkoma síðasta árs var verri en við höfum áður séð hjá mörgum deildum félagsins. Níu af átján ráðum voru rekin með halla og var hann umtalsverður hjá nokkrum þeirra. Afkoma félagsins í heild var neikvæð um 41 milljón eða um 9% halli sem er einsdæmi og áhyggjuefni fyrir okkur. Engu að síður voru allar einingar félagsins með jákvætt eigið fé um síðustu áramót að þremur undanskildum en lítið má bregða út af í rekstrinum hvað það varðar.
Rekstur íþróttafélaga er krefjandi verkefni og síðasta ár, sem var fyrsta rekstrarárið eftir Covid, ber þess glöggt merki. Kostnaður eykst samhliða metnaðarfullu starfi og sífellt erfiðara verður að sækja styrki og afla fjár. Fjáröflunartekjur eru stærsti tekjupósturinn okkar eða um 42% af tekjum félagsins en æfingagjöld skila um 36% og rekstarstyrkur Mosfellsbæjar, sem við erum mjög þakklát fyrir, er um 22% af okkar tekjum.
Teikn eru á lofti í efnahagslífinu og gera má ráð fyrir að það verði enn erfiðara en áður að afla tekna fyrir félagið næstu misserin. Fjárhagslegt svigrúm er lítið og leggja þarf áherslu á traustan rekstur án þess þó að það bitni á metnaðarfullu íþróttastarfi þar sem við viljum vera í fremstu röð og standast samanburð við önnur félög bæði hvað varðar aðstöðu og utanumhald.
Aðalstjórn er engin undantekning hvað þetta varðar. Þar er lítið svigrúm í rekstrinum og úthýsing á bókhaldi til Sessor er kostnaðarsöm. Þar skiptir miklu máli að íþróttafélög geta ekki nýtt innskatt af aðföngum, líkt og sérfræðiþjónustu, sem er mikið hagsmunamál fyrir íþróttahreyfinguna að fá breytt en þannig myndi afkoman aðalstjórnar batna um rúmar fjórar milljónir árlega.
Uppskeran á árinu 2022 var að mörgu leiti jöfn og góð og það verður aldrei of oft sagt að það er svo innilega gleðilegt þegar maður sér fólkið okkar uppskera árangur erfiðisins. Eins og staðan er í dag eru meistaraflokkarnir okkar í handbolta og blaki í efstu deild en í knattspyrnunni eru bæði liðin okkar í næst efstu deild, stelpurnar stoppuðu eitt tímabil í Bestu deildinni í þessari atrennu. En það hlýtur að vera markmið okkar að vera alls staðar í fremstu röð.
Íþróttakona ársins hjá Aftureldingu 2022 er Thelma Dögg Grétarsdóttir blakkona, en árið var henni mjög gott og var hún einn af máttarstólpum Aftureldingar og A-landsliðs Íslands. Thelma hefur farið í atvinnumennsku erlendis og óskum við henni alls hins besta.
Íþróttamaður Aftureldingar var Georg Bjarnason knattspyrnumaður, en hann átti sérstaklega gott ár með knattspyrnunni og algjör lykilmaður liðsins.
Mér telst til að 58 af okkar yngri iðkendum hafi komið við sögu í landsliðsverkefnum á árinu og það er ekkert smá flottur árangur. Það segir mér að framtíðin okkar er mjög björt. Í fimleikunum fór hluti af drengjunum okkar á lokamót EM junior og einn iðkandi í blaki, Lejla Sara spilaði með U-17, U-19 og A landsliðinu og geri aðrir betur.
Iðkendum í Aftureldingu hefur fjölgað jafnt og þétt og síðasta ár var þar engin undantekning. Iðkendum fjölgaði um 127 og voru 2.162 í árslok sem er 6,2% fjölgun. Þar af voru 1.777 börn og ungmenni og fjölgaði þeim um 7,2% milli ára. Alls voru 1.533 einstaklingar að baki þeim skráningum og voru þannig 236 börn og ungmenni sem æfðu meira en eina íþrótt sem er 14% fjölgun á milli ára.
Við erum markvisst að vinna í því að tímatafla hjá 1. – 4. bekk skarist ekki hjá stærstu deildunum og er markmið okkar með því að börnin þurfi ekki að velja sér eina grein strax. Til þess að þetta gangi upp þá þarf Mosfellsbær að aðstoða okkur með því að leysa frístundamál þessara barna þannig að við getum hafið starfið fyrr á daginn. Annað hvort með því að taka aftur á móti börnunum í frístund viðkomandi skóla að lokinni æfingu eða við leysum það í sameiningu að Varmá með einhverskonar vistun þar til hefðbundinni frístund á að ljúka.
Okkur í aðalstjórn eru aðstöðumálin endalaust hugleikin og þetta er vissulega verkefni sem aldrei klárast. Eftir þarfagreiningu sem var gerð í kjölfarið á 110 ára afmælisfundi félagsins fyrir þremur árum sem unnin var af okkur í Aftureldingu, Mosfellsbæ og Eflu verkfræðistofu ætti að vera komin tímalína framkvæmda.
- Gervigrasvöllurinn er að fá nýtt gras í þessum töluðu orðum.
- Aðstaða til styrktarþjálfunar er að stórbætast hjá okkur núna um mitt ár þar sem við munum fá stærra rými til notkunar.
- Hönnun á rými aðalvallarins og 200m hlaupabrautar er í fullri vinnu og stefnan er að þar verði komið gervigras vorið 2024.
- Þjónustubyggingin sem frestaðist fyrir ári síðan er vonandi komin á fullt í hönnun og fer vonandi í útboð í haust.
- Fullbyggð stúkubygging við aðalvöllinn er svo síðust í röðinni á þessum stóru framkvæmdum, en svæðið fyrir hana er hugsað með í hönnun svæðisins.
Við fögnum því að hreyfing er á aðstöðumálunum okkar enda stækkandi bæjarfélag og Afturelding er að þjónusta ansi stóran hluta íbúa bæjarins. Enda er það margsannað mál að því betri aðstöðu sem hægt er að bjóða uppá, því betri árangri er hægt að ná og iðkendur og þjálfarar verða miklu hamingjusamari.
Talandi um þjálfara þá er mér mjög hugleikin sú umræða sem hefur átt sér stað undanfarið varðandi samskipti þjálfara og foreldra. Við þurfum í sameiningu að skapa þannig menningu í Aftureldingu að við sýnum kurteisi og virðingu í samskiptum. Við foreldrar verðum seint fullkomlega sammála þjálfurunum, en þeir eru sérfræðingarnir og við verðum að treysta því að þeir séu að gera rétt með hagsmuni iðkenda og liðanna í huga. Í það minnsta sýnum hvort öðru virðingu og það nær í báðar áttir. Sama á við með dómara, oft á tíðum eru þetta ungir krakkar að stíga sín fyrstu skref, það er enginn að leika sér að því að dæma illa. Sýnum kurteisi. Ef hlutirnir eru þannig að það þarf inngrip þá erum við með sérfræðinga á skrifstofunni, starfsfólkið okkar sem eru boðin og búin að aðstoða alltaf.
Að lokum þá vil ég bara þakka fyrir mig, takk fyrir traustið, takk fyrir að vera hreinskilin. Ég er alltaf til í samtalið við alla og það þurfa ekki allir að vera sammála en við verðum að geta tekist á af virðingu. Berum virðingu hvert fyrir öðru óhað deildum og ráðum. Við erum saman Afturelding og erum öll jafn mikilvæg. Ég hvet ykkur til að vera dugleg að mæta og hvetja liðin okkar áfram. Úrslitakeppni framundan bæði í blaki og handbolta og svo er fótboltinn að byrja að rúlla.
Áfram Afturelding
Birna Kristín Jónsdóttir, Formaður Aftureldingar.